Gamli Bakstur ehf. var stofnaður í kringum laufabrauðsgerð fyrir jólahátíðina 2020. Fyrirtækið sækir gildi sín í gamlar baksturshefðir. Stefna Gamla Baksturs er að bjóða fram bakstursafurðir sem líkastar því sem þær voru í gamla daga –sem væri það heimagert.
Höskuldur Gunnlaugsson heiti ég, stofnandi og eigandi Gamla Baksturs. Í fjölskyldu minni ríkir mikil baksturshefð og ég sæki innblástur til hennar og hreinlega uppskriftirnar af afurðunum mínum:
Hátíðarlaufabrauð er framleitt eftir uppskrift Ömmu minnar heitinnar, Arnþrúðar Gunnlaugsdóttur, frá Eiði á Langanesi. Við fjölskyldan höfum komið saman í aðdraganda Jóla og skorið út laufabrauð og steikt, allt frá því ég man eftir mér. Ein meginregla hefur ríkt við laufabrauðsgerðina heima: Bannað er að nota rúllujárn, heldur verður að skera út eftir gömlu aðferðinni.
Eldbakaðar Flatökur eru gerðar eftir uppskrift og aðferð foreldra minna, Ragnheiðar Þormar og Gunnlaugs Sigurðssonar, en þau bökuðu flatkökur fyrir gesti þegar þau ráku veitingasöluna í Jónshúsi, Kaupmannahöfn.
Sveitakleinurnar eiga rætur sínar að rekja til móðursystur minnar, Jóhönnu Þormar, en þær eru einfaldlega bestu kleinur sem maður fær!